Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans, segir lyfjaneyslu meðal háskólanema hafa aukist jafnt og þétt í takt við aukna lyfjanotkun á Íslandi almennt, en hann var meðal frummælenda á ráðstefnu um geðheilbrigði sem stendur yfir í HR í vikunni. „20% háskólanema hafa á einhverjum tímapunkti tekið lyf sem hafa verið ávísuð á einhvern annan og þetta eru fyrst og fremst tveir flokkar lyfja. Annars vegar lyf sem eru tekin í þeim tilgangi að bæta námsárangurinn og hins vegar sem fólk tekur vegna álagseinkenna, verkja, svefnleysis og kvíða,“ segir Jón Magnús.

10,3% nemenda við HR með einkenni þunglyndis
Ingvar Eysteinsson, mastersnemi í klínískri sálfræði, vann rannsókn meðal nemenda Háskólans í Reykjavík en niðurstöður hennar gefa til kynna að 10,3% nemenda við skólann verði fyrir truflun í daglegu lífi vegna þunglyndis og 9,3% vegna kvíða. „Samkvæmt okkar rannsókn virðast töluvert færri vera að glíma við þessi vandamál heldur en að fyrr hefur verið ætlað,“ segir Ingvar. Vísar hann þar til nýlegrar rannsóknar frá árinu 2017 sem náði einnig til nemenda við Háskólann í Reykjavík. Þrátt fyrir það er hlutfallið yfir viðmiðunarmörkum.„Það sem við vorum að gera var að leggja mat á algengi mismunandi kvíðavandamála og þunglyndis á meðal háskólanema með því að nota einkennalista og auk þess notuðum við spurningalista þar sem við spurðum fólk út í þeirra mat á truflun vegna kvíða, þunglyndis og streitu,“ útskýrir Ingvar. „Ég held að það sé rík ástæða til að bregðast við þessum vandamálum.“