Fjórir Íslendingar voru í eldlínunni í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt en öll Íslendingaliðin töpuðu leikjum sínum þrátt fyrir jafna leiki.
Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 17 stig og gaf 2 stoðsendingar í naumu tapi Ball State Cardinals gegn Toledo háskólanum en leiknum lauk með eins stigs sigri Toledo, 63-62.
Lovísa Henningsdóttir skilaði 19 stigum af bekknum en hún nýtti fimm af sjö þriggja stiga tilraunum sínum í leiknum. Það dugði þó ekki til sigurs því Quinnipiac háskólinn vann öruggan 12 stiga sigur á Marist, 66-78.
Valur Orri Valsson spilaði 28 mínútur þrátt fyrir að byrja á bekknum og skoraði á þeim tíma sex stig auk þess að gefa tvær stoðsendingar og taka tvö fráköst þegar lið hans Florida Tech beið lægri hlut fyrir Lynn, 76-71 en framlengingu þurfti til að útkljá leikinn.
Í kvennaboltanum mættust sömu lið og þar vann Lynn með minnsta mun, 50-49. Guðlaug Júlíusdóttir spilaði stærstan hluta leiksins og skoraði tvö stig auk þess að vera með þrjá stolna bolta.
