Viðskipti innlent

Tveir milljarðar inn til Kerecis

Unnið að framleiðslu Kerecis.
Unnið að framleiðslu Kerecis.
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis hefur lokið fjármögnun fyrir 16 milljónir dollara eða jafnvirði um tveggja milljarða króna. Félagið seldi nýtt hlutafé til núverandi hluthafa og nýrra fyrir um 1.250 milljónir króna. Að auki hefur kröfum verið skuldbreytt í hlutafé að upphæð 750 milljónir króna.

Kerecis sem var stofnað 2011 er með höfuðstöðvar og framleiðslu á Ísafirði. Félagið framleiðir afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Í samtali við Fréttablaðið segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, að umframeftirspurn hafi verið í útboðinu. Hann segir þetta styrki félagið verulega. „Við ætlum að nota fjármunina til að halda áfram að bæta meðhöndlun sára með áherslu á sjúklinga í Bandaríkjunum,“ segir Guðmundur.

„Meðhöndlun á sykursýkisárum með þorskroði er á hraðri leið með að verða almenn á Bandaríkjamarkaði. Það er mikil aukning á sykursýki á heimsvísu og hundruð þúsunda aflimana framkvæmdar þegar sárameðhöndlun heppnast ekki.“

Hjá félaginu eru 80 starfsmenn, þar af tólf á Ísafirði. Guðmundur gerir ráð fyrir að tvöfalda starfsmannafjöldann þar á næstu átján mánuðum við framleiðslu og gæðaeftirlit.

Mynd/Kerecis





Fleiri fréttir

Sjá meira


×