Í dómsorði segir að ákærðu sæti hvor um sig fangelsi í þrjá mánuði en fresta skuli fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms haldi ákærðu almennt skilorð en konurnar hafa hvorugar brotið af sér áður.
Þær voru sakfelldar í þremur ákæruliðum af fjórum en ákærðu voru dæmdar til að greiða allan sakarkostnað. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að konurnar hefðu ekki raskað öryggi flugvélarinnar.
Tilgangurinn með uppátæki kvennanna var að reyna að koma í veg fyrir að hælisleitandinn Eze Okafor yrði sendur úr landi. Þær tölu sig vera að bjarga lífi hans. Vélin var á leið til Svíþjóðar þaðan sem átti að senda Okafor til Nígeríu en hann hafði orðið fyrir ofbeldi af hálfu hryðjuverkasamtakanna Boko Haram fyrir að neita að ganga til liðs við samtökin og beita sjálfur ofbeldi.
Ósanngjarn dómur sem kemur á óvart
Konurnar segja í samtali við fréttastofu að þær séu afar hissa á dómnum. Hann sé afar ósanngjarn. Jórunni og Ragnheiði finnst líklegt að þær komi til með að áfrýja dómnum til Landsréttar en þær ætli að gefa sér daginn í dag til að gaumgæfa málið nánar með lögmönnum sínum.Aðalmeðferð í máli íslenska ríkisins á hendur Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur fór fram í héraðsdómi Reykjavíkur þann 6. mars síðastliðinn, tæpum þremur árum eftir atburðinn.
Páll Bergþórsson, lögmaður Jórunnar Eddu, segir í samtali við fréttastofu að ákvörðun um mögulega áfrýjun dómsins muni liggja fyrir á morgun. Hann hefur áður sagt að ákæruvaldið hafi ekki náð að færa sönnur á þær ásakanir sem settar voru fram á hendur Jórunni og Ragnheiði.
Hér að neðan er viðtal sem Sighvatur Jónsson fréttamaður tók við Jórunni og Ragnheiði í dag.