Mikill fjöldi ferðamanna
Frá apríl og fram í október eru bæirnir fullir af ferðamönnum sem margir koma siglandi. Göturnar í þessum litlu klettabæjum eru svo þröngar að þar fara engir bílar akandi. Ekki er tekið á móti fólki með börn, fólki í hjólastólum eða hjartveikum í þessar siglingar. Bæirnir eru erfiðir yfirferðar og það þarf að klífa kletta.Bæjaryfirvöld hafa þurft að setja fjöldatakmarkanir á ferðamenn á vissum tímum. Allir veitingastaðir og barir eru smekkfullir af fólki og margir segja að friðurinn sé úti í litlu fallegu þorpunum. Flestallir ferðamenn eru dagsgestir sem stoppa stutt, koma með lest sem er yfirleitt troðin. Ferðamönnum er bent á að gæta sín á vasaþjófum í lestinni, sérstaklega börnunum sem gerð eru út í þeim tilgangi að ræna gesti.
La Spezia er sá bær þar sem skemmtiferðaskipin stoppa. Frá La Spezia fer lestin til litlu bæjanna. Áform eru um að bæta aðstöðuna fyrir skemmtiferðaskipin til að hægt sé að taka á móti fleiri ferðamönnum. Engu að síður vilja bæjaryfirvöld í Cinque Terre fækka ferðamönnum úr 2,5 milljónum gesta í 1,5 milljónir. Óljóst er hvernig það á að takast. Ein uppástungan er dýr aðgöngumiði að bæjunum.
Einnig hefur verið talað um app sem virkar eins og einhvers konar umferðarljós, það lætur vita í hvaða þorpi fæstir eru. Rautt ljós merkir að bærinn sé lokaður ferðamönnum en grænt að það sé allt í góðu að koma í heimsókn. Þá er einnig rætt um að setja upp miðasölu fyrir fram. Aðeins sé hægt að koma í heimsókn hafi fólk í fórum sínum miða sem það hafi áður keypt. Það gæti hins vegar verið erfitt að framkvæma þar sem margir gestir koma með skipum og stoppa stutt.
Einstök náttúruperla
Cinque Terre er sögð einstök náttúruperla, falleg og sjarmerandi. Margir segja ógleymanlegt að sigla með ströndinni og stoppa einhverja stund í bæjunum en aðrir vilja taka lestina. Lestarferð frá Monterosso til Vernazza er ægifögur, ekið er um vínakra sem liggja utan í klettaveggnum. Útsýnið frá Vernazza er ógleymanlegt. Það eru 550 tröppur upp í turn á hæðinni, erfið leið en þegar upp er komið er útsýnið sannkallað ævintýri á að líta. Munið eftir góðum gönguskóm.Vilji gestir fá sér að borða á ævintýralega fallegum stað er mælt með Porto Roca hótelinu í Monterosso. Þaðan er eitt fallegasta útsýni í Evrópu, að því er The Economist hefur skrifað. Hótelið liggur hátt í klettavegg og skagar út í Miðjarðarhafið. Nauðsynlegt er að bóka borð fyrir fram.