Lögreglan segist hafa brugðist við ábendingu um líkamsárás í Breiðholti á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Þar á tveimur mönnum að hafa lent saman og er annar þeirra sagður hafa hlotið stungusár á handlegg.
Ekki fylgir sögunni hvers konar eggvopn var notað til verknaðarins en maðurinn sem talinn er hafa veitt áverkann var handtekinn og hefur hann fengið að verja nóttinni í fangaklefa.
Þess er ekki getið í dagbók lögreglu hversu illa hinn skorni slasaðist í árásinni. Aftur á móti er tekið fram að maðurinn vildi enga aðstoð þiggja, hvorki frá lögregu né sjúkraflutningamönnum. Því má ætla að hann hafi einfaldlega haldið blóðugur heim á leið eftir að búið var að handtaka árásarmanninn.
Lögreglan segist að sama skapi hafa þurft að stöðva ölvaðan mann við Sundhöllina í Reykjavík um klukkan 22 í gærkvöld. Sá er sagður hafa verið að veitast að fólki sem á vegi hans varð og var hann því handtekinn.
Maðurinn er sagður grunaður um vörslu fíkniefna og önnur brot á lyfjalögum.
Stunginn en afþakkaði aðstoð
Stefán Ó. Jónsson skrifar
