Íslenski boltinn

Jón Þór: „Vil ná að spila liðið saman“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Þór á blaðamannafundinum í dag.
Jón Þór á blaðamannafundinum í dag. vísir/vilhelm
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, tilkynnti í dag hvaða 23 leikmenn fara með til Finnlands þar sem Ísland mætir heimakonum í tveimur vináttulandsleikjunum í næsta mánuði. Fyrri leikurinn fer fram í Turku 13. júní og sá síðari í Espoo fjórum dögum síðar.

Þetta eru síðustu leikir íslenska liðsins fyrir undankeppni EM sem hefst í haust.

„Þetta er lokaundirbúningurinn fyrir undankeppnina. Ég vil ná að spila liðið saman. Við höfum gert miklar breytingar á milli verkefna og milli leikja,“ sagði Jón Þór.

Hann segir ekki ósennilegt að hópurinn í fyrstu leikjunum í undankeppninni verði svipaður og hann er núna.

„Við erum hægt og rólega að sigla í þá átt. Við erum að fá fimm leikmenn úr U-19 ára landsliðinu sem var í milliriðli í Hollandi í vor. Ég gat ekki tekið þær með til Algarve eða Suður-Kóreu. Það verður gaman að sjá hvernig þær standa sig og fá tækifæri til að vinna með þeim,“ sagði Jón Þór.

Tveir nýliðar eru í landsliðshópnum; Blikarnir Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

„Þær eru í hópnum vegna þess að þær hafa staðið sig feykilega vel með U-19 ára landsliðinu og sínu félagsliði. Þetta eru efnilegar fótboltakonur,“ sagði Jón Þór.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×