Viðskipti innlent

Þurfum að brjóta upp úreltu kerfin

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Þorbjörg Helga segist elska að ganga á fjöll sem eru hæfilega stór því hún sé ágætlega lofthrædd.
Þorbjörg Helga segist elska að ganga á fjöll sem eru hæfilega stór því hún sé ágætlega lofthrædd. Fréttablaðið/Ernir
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er framkvæmdastjóri og stofnandi íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Kara Connect. Fyrirtækið hefur þróað hugbúnaðarlausn sem auðveldar aðgengi að sérfræðiþjónustu á sviði heilbrigðis- og menntamála. Þorbjörg Helga segir að næsta verkefni sé að yfirfæra það sem hefur gengið vel hér heima á norræna markaði.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Mínar ær og kýr eru skólamál og stór hluti af starfi mínu tengist þeim vangaveltum. Ég hef áhuga á mörgu öðru, þar með talið heilsu og umhverfismálum. Mér finnst ótrúlega gaman að lesa skáldsögur og vildi að ég gæti gert meira af því. Lestur virkar eins og hugleiðsla fyrir mig. Ég hleyp og elska að labba á fjöll sem eru hæfilega stór því ég er ágætlega lofthrædd. Ég er bíla- og tækjadellukona og svo hjóla ég smávegis. Besta sem ég geri er að vera á fjallahjóli í íslenskri náttúru. Ég er mjög mikið fyrir hönnun og nýt þess að slaka stundum á með Instagram og skoða síður og nýjasta nýtt um hönnun og arkitektúr.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Hún er nú ekkert flókin, ég kveiki á tónlist til að vekja yngra settið í fjölskyldunni, sturta mig og kem öllum út. Ég nýt þess að geta gengið með dæturnar í skólann og svo í vinnuna og finnst það algjör lúxus. Ég flýg mikið og þá er morgunrútínan eiginlega farin að miða að því að geta farið út úr húsi á undir 15 mínútum til að bæta aðeins við svefninn. Ég er núna að vinna í því að ná meiri svefni og tók þá stóru ákvörðun að hætta að drekka kaffi fyrr á árinu. Það breytti morgunrútínunni talsvert verð ég að viðurkenna.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Líklega eru það bækur eins og Educated og Glass Castle og Mrs. Eleanor Oliphant is completely fine. Skáldsögur með sögulegri skírskotun eins og The light we cannot see, The Nightingale og The Great Alone hafa líka mikil áhrif á mig.

Hver var kjarni erindisins sem þú fluttir á haustráðstefnu Advania?

Skilaboðin voru að aðgengi að hjálp sérfræðinga eru í dag í sílóum hins opinbera sem tala ekkert saman. Það þarf utanaðkomandi aðila sem setur sig í spor þeirra sem þurfa á hjálp að halda og sérfræðinganna sem þurfa að glíma við mjög flókið kerfi til að laga þetta umhverfi. Það þarf að brjóta þetta kerfi upp og hætta að horfa á hvernig kerfi geta talað hvert við annað. Það á að horfa á hvernig kerfi tala og þjónusta íbúa til að bæta þjónustu við þá. Þannig hjálpum við fleirum, spörum pening og náum betri árangri.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin undanfarin misseri?

Það hefur verið krefjandi að sannfæra ólíkt fólk, bæði fjárfesta og viðskiptavini, um að stórar hugmyndir eins og lausnin sem Kara leggur fram sé ekkert endilega flókin. Hugbúnaðurinn tryggir að sérfræðingar geti á öruggan hátt tengst skjólstæðingum sínum og um leið nýtt nýjustu tækni til að leysa margt af hólmi sem í dag er í úreltum kerfum eða hreinlega á blaði og í möppum.

Hvað áskoranir og tækifæri eru fram undan hjá Kara Connect?

Það eru ótrúleg tækifæri í farvatninu og mjög mikið að gera hjá okkur. Það er áskorun þegar maður vex að sinna kúnnunum sínum vel og hjálpa þeim að innleiða og stíga inn í nýja veröld. Við fórum í gegnum miklar áskoranir til að tryggja að Kara verði örugg fyrir alla aðila og kláruðum í sumar að fá samþykki Landlæknis fyrir hugbúnaðinn, öryggisúttekt Syndis og GDPR-úttekt. Næstu verkefni eru að yfirfæra það sem hefur gengið vel hér heima á norræna markaði.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Ég sé mig sátta og spræka eftir að hafa ýtt úr vör fyrirtæki og verkefnum sem bæta samfélagið. Ég hef það raunar sem markmið að þá verði meiri tími til að lesa góðar bækur og sinna fjölskyldu og vinum. Ég sá mig nú alltaf sem skólastjóra einu sinni – hver veit?

Nám: Stúdent frá VÍ, BA-gráða frá HÍ í uppeldis-og menntunarfræði og sálfræði og meistaragráða í námssálfræði frá University of Washington í Seattle.

Störf: Framkvæmdastjóri og stofnandi Köru Connect ehf. ásamt Hilmari Geir Eiðssyni. Stofnandi Tröppu þjónustu og Tröppu ráðgjafar 2014 ásamt Tinnu Sigurðardóttur og Kristrúnu Lind Birgisdóttur. Borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 2006-2014. Faglegur aðstoðarmaður menntamálaráðherra 2003-2006, stundakennari við HR 1999-2003 og verkefnastjóri Auðs í krafti kvenna 2000-2003. Formaður markaðsverkefnisins Iceland Naturally, formaður fulltrúaráðs Verzlunarskóla Íslands og varaformaður Þjóðleikhúsráðs.

Fjölskylduhagir: Gift Hallbirni Karlssyni verkfræðingi og á með honum fjögur börn, Karl Ólaf, Atla Frey, Ólöfu Stefaníu og Emblu Margréti. Fjölskyldan hefur búið í Palo Alto í Kaliforníu, Seattle í Washingtonfylki, Fontainbleu í Frakklandi og Barcelona á Spáni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×