Innlent

SGS teiknar upp næstu skref og aðgerðir eftir viðræðuslit

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Sextán félög eru í samfloti SGS sem sleit kjaraviðræðum við SA í gær.
Sextán félög eru í samfloti SGS sem sleit kjaraviðræðum við SA í gær. Fréttablaðið/Ernir
„Starfsgreinasambandið lýsti því yfir á þessum fundi að við mætum það svo að viðræðurnar væru árangurslausar og við slitum þeim. Í framhaldinu mun svo aðgerðahópur okkar koma saman til að teikna upp aðgerðir okkar félaga,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

SGS og Samtök atvinnulífsins hafa fundað á vettvangi ríkissáttasemjara frá því að deilunni var vísað þangað þann 21. febrúar síðastliðinn. Samninganefnd SGS samþykkti fyrir helgi að slíta viðræðum ef ekkert nýtt kæmi fram frá SA. Flosi staðfestir að engar nýjar hugmyndir eða tillögur hafi komið frá SA, hvorki um helgina né á samningafundinum.

Aðgerðahópur SGS mun funda í dag og verða tillögur kynntar fyrir samninganefnd í næstu viku. Hvert félag innan SGS þarf svo að boða til verkfalls og fá það samþykkt á sínu félagssvæði.

„Það er auðvitað aldrei loku fyrir það skotið að Samtök atvinnulífsins spili einhverju út eða eitthvað breytist þannig að kjaraviðræður komist aftur í gang. Ef ekkert gerist í þessu efni þá munum við væntanlega boða til verkfalla,“ segir Flosi.

Fram hefur komið að eitt af því sem SGS sé ósátt við í viðræðunum séu hugmyndir SA um breytt vinnutímafyrirkomulag. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir erfitt að taka einhvern einn þátt út fyrir sviga.

„Þetta er allt samhangandi og við erum búin að ná mjög mörgu saman en því miður tókst ekki að ná þessu öllu saman eins og við höfðum gert okkur vonir um. Það breytir því ekkert að það er búið að leggja grunninn að kjarasamningi til framtíðar,“ segir Halldór.

Sú vinna liggi fyrir og muni nýtast í framhaldinu. „Þannig getum við tekið upp þráðinn með skömmum fyrirvara á nýjan leik ef réttar aðstæður myndast.“

Boða þarf til fundar hjá ríkissáttasemjara í vikunni í deilu SA og Eflingar, VR, VLFA og VLFG. Að óbreyttu brestur á sólarhringsverkfall á föstudaginn meðal félagsmanna Eflingar og VR sem starfa á hótelum og hjá hópbifreiðafyrirtækjum.

„Við þurfum að hittast og reyna að höggva á þennan gordíonshnút með það að markmiði að koma í veg fyrir að þetta verkfall verði að veruleika. Þetta er mjög alvarlegt verkfall og umfangsmeira en síðasta verkfall. Þetta mun valda miklu fjárhagslegu tjóni,“ segir Halldór.


Tengdar fréttir

Slíta viðræðum ef ekkert þokast

Fyrir helgi samþykktu sextán aðildarfélög SGS að slíta formlega viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) ef ekkert nýtt kæmi frá SA um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×