Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, er enn sár yfir tveggja ára gömlum ummælum Peps Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City.
Guardiola hefur verið virkur í sjálfstæðisbaráttu Katalóníu og á fjöldasamkomu í Barcelona í júní 2017 sagði hann að Spánn væri kúgandi harðstjórnarríki.
„Að sjálfsögðu. Ég er móðgaður því það sem hann sagði var ekki satt,“ svaraði Sánchez í samtali við Marca er hann var spurður hvort ummæli Guardiola trufluðu hann ennþá.
Guardiola hefur oft verið með gulan borða, merki sjálfsstæðisbaráttu Katalóna, í barminum. Á síðasta tímabili sektaði enska knattspyrnusambandið hann fyrir að vera með borðann.
Guardiola lék 47 landsleiki fyrir Spán á árunum 1992-2001 og fór með spænska landsliðinu á tvö stórmót. Þá varð hann Ólympíumeistari með Spáni 1992.
Guardiola lék einnig sjö leiki fyrir landslið Katalóníu á árunum 1995-2005.

