Íslenski boltinn

„Megum aldrei gleyma því að við erum Ísland og verðum að trúa á sjálfa okkur“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Davíð í viðtalinu í kvöld.
Davíð í viðtalinu í kvöld. mynd/skjáskot
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17 ára landsliðs karla, var svekktur en stoltur eftir að ljóst var að Ísland var úr leik á lokamóti U17 landsliða karla sem fer fram í Írlandi.

Eftir 4-2 tap gegn Portúgal í kvöld var ljóst að Ísland er úr leik en Portúgal og Ungverjaland fara upp úr riðlinum.

„Drullu svekktur en samt einhvernveginn stoltur,“ voru fyrstu viðbrögð Davíðs er hann ræddi við fjölmiðladeild KSÍ eftir lokaflautið í Írlandi í gær.

„Ef maður setur heildarmyndina saman þegar maður kemur heim þá held ég að við verðum að finna það sem við gerðum vel í þessu móti, því það var margt.“



„Þeir eru búnir að vera hrikalega flottir. Undirbjuggu sig hrikalega vel fyrir hvern leik og við náðum að halda í það að taka einn dag í einu og undirbúa okkur vel.“

„Við létum það síðan koma á vellinum og þetta voru allt hnífjafnir leikir og gátu dottið hvoru megin sem var. Við tökum mikið með okkur; bæði teymið og strákarnir út úr þessu.“

Ísland er ekki á stórmóti í yngri landsliðum á hverju ári og er Davíð Snorri stoltur af strákunum að hafa komist á þetta stóra mót.

„Það er frábært að komast hingað og þetta er rosalega stórt. Leikirnir eru búnir að vera geggjaðir og þetta gefur strákunum búst að halda áfram.“

„Það er allt hægt. Við megum aldrei gleyma því að við erum Ísland og verðum að trúa á sjálfa okkur,“ sagði Breiðhyltingurinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×