Innlend blómaframleiðsla getur ekki staðið undir íslenskum blómamarkaði og innflutningur á afskornum blómum er nauðsynlegur segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ólafur svarar þannig ummælum Axels Sæland í Fréttablaðinu í gær þar sem hann segir tollkvóta á blómum ekki hvetjandi fyrir íslenska blómabændur og að innlend blómaframleiðsla geti staðið undir markaðnum. Innflutningur afskorinna blóma sé óþarfur.
„Okkur finnst dálítið merkilegt að stærsti blómaframleiðandi á landinu skuli kvarta undan samkeppni frá innflutningi sem nemur 15 prósentum af eingöngu hans framleiðslu og er flutt inn með 30 prósenta tolli, 30-40 króna gjaldi á hvert blóm. Ef íslensk blómaframleiðsla stenst ekki slíka samkeppni þá ættu menn kannski bara að fara að snúa sér að einhverju öðru,“ segir Ólafur.
Í blaðinu í gær var einnig fjallað um að innflutningur afskorinna blóma sé mengandi. Kolefnisspor þeirra sé mun stærra en þeirra blóma sem ræktuð eru hér á landi. Aðspurður segir Ólafur að fjölbreyttara vöruúrval til neytenda geti haft jákvæð áhrif á umhverfisvernd:
„Það þarf kannski að horfa á það í stærra samhengi. Þegar neytendur eru að taka ákvarðanir um hvaða vörur þeir kaupa út frá sínu heildar neyslumynstri. Ef þeir til dæmis spara mikið á því að kaupa innfluttar vörur sem eru ódýrari en innlend framleiðsla þá gengur það kannski hraðar að safna fyrir rafbíl eða öðrum umhverfisvænum vörum“.
