Sport

„Mér finnst eins og allir séu að stara á mig“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka.
Naomi Osaka. Getty/Francois Nel
Naomi Osaka, efsta konan á heimslistanum í tennis, byrjar ekki vel eftir þjálfaraskiptin því hún tapaði fyrsta leiknum sínum eftir að hún varð sú besta í heimi.

Naomi Osaka tapaði 6-3 og 6-3 á móti Kristina Mladenovic í 2. umferð á Dúbaí tennismótinu.

Brottrekstur þjálfarans sem kom henni á toppinn vakti mikla athygli en hún rak Sascha Bajin í síðustu viku.

Naomi Osaka kenndi umfjölluninni að undanförnu um tapið. „Ég gat ekki komist yfir þetta og þetta er afleiðingin af því,“ sagði Naomi Osaka. Hún gat ekki haldið aftur af tárunum á blaðamannafundinum.





„Ég er nokkuð viss um að þið hættið að lokum að tala um þetta. Núna eru þetta víst stærstu fréttirnar í tennisheiminum,“ sagði Osaka.

Osaka var mjög ólík sjálfum sér í þessum leik enda tók það Kristina Mladenovic aðeins 66 mínútur að vinna hana. Kristina Mladenovic hafði ekki unnið leik á þessu ári þegar kom að leiknum við þá bestu í heimi og þetta eru því vægast sagt óvænt úrslit.

„Þetta er svolítið erfitt því mér finnst eins og allir séu að stara á mig og ekki af góðri ástæðu,“ sagði Osaka.

Naomi Osaka sat hjá í fyrstu umferðinni en hún er enn að leita sér að nýjum þjálfara.  Naomi Osaka sagðist frekar velja hamingjuna en að láta Sascha Bajin þjálfa sig áfram.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×