Innlent

Ráðast í aðgerðir eftir svik Procar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá samstarfsfundinum í húsakynnum FÍB. Frá vinstri: Björn Kristjánsson og Runólfur Ólafsson frá FÍB, Breki Karlsson frá Neytendasamtökunum, Óðinn Valdimarsson og Þórir Skarphéðinsson frá Bílgreinasambandinu, Jóhannes Þór Skúlason frá SAF, Þórhildur Elín Elínarsdóttir, Guðmundur Helgason og Þórólfur Árnason frá Samgöngustofu.
Frá samstarfsfundinum í húsakynnum FÍB. Frá vinstri: Björn Kristjánsson og Runólfur Ólafsson frá FÍB, Breki Karlsson frá Neytendasamtökunum, Óðinn Valdimarsson og Þórir Skarphéðinsson frá Bílgreinasambandinu, Jóhannes Þór Skúlason frá SAF, Þórhildur Elín Elínarsdóttir, Guðmundur Helgason og Þórólfur Árnason frá Samgöngustofu. Aðsend
Bílgreinasambandið mun innan tíðar opna fyrir aðgang að ökutækjaskrá þar sem hægt verður að kanna hvort tiltekinn bíll hafi verið til umráða hjá bílaleigu en í eigu fjármögnunarfyrirtækis. Skráin verður aðgengileg á vefsíðu sambandsins en auk hennar verður hægt að sjá skoðunarferil bílsins á síðunni, en upplýsingar um umráðamenn eru alla jafna ekki sýnilegar almenningi.

Þetta er meðal niðurstaðna fundar Félags íslenskra bifreiðaeigenda, Samtaka ferðaþjónustunnar, Neytendasamtakanna, Bílgreinasambandsins og Samgöngustofu sem fram fór fyrir helgi. Í tilkynningu sem send var út vegna fundarins kemur fram að á efnisskránni hafi verið umræður um hvernig megi bregðast við því óöryggi og tjóni sem hefur skapast vegna ólögmætrar sölu bílaleigubíla með falsaðri kílómetrastöðu. Auk þess ræddu fulltrúar fyrrnefndra félaga um leiðir til að endurheimta traust almennings og vinna að úrbótum til framtíðar.

Fram á að hafa komið hjá fulltrúum Samgöngustofu á fundinum að í þessari viku verði bréf sent til allra 140 skráðra bílaleiga. Í því verði óskað eftir upplýsingum um fyrirkomulag skráninga á kílómetrastöðu og hvernig best sé að koma í veg fyrir svik af því tagi sem hér um ræðir.

Ökutækjaskrá breytt

„Samgöngustofa ítrekar að opinbert eftirlit geti aldrei komið að fullu í veg fyrir brotastarfsemi. Aftur á móti geti verið ástæða til að gera úttektir með stikkprufum,“ segir í tilkynningunni og bætt við að Samgöngustofa muni jafnframt ráðast í breytingar á ökutækjaskrá þannig að ef kílómetrastaða er skráð lægri við skoðun en áður, þá verði sérstök athygli vakin á því.

Fundarmenn eru sagðir hafa verið sammála um að hvetja lögreglu til að hraða rannsókn á þeim svikamálum sem upp hafa komið. Sem fyrst þyrfti að komast til botns í því við hvaða bíla hefði verið átt og hvort slík vinnubrögð hefðu verið stunduð víðar en hjá Procar. Með því væri hægt að ganga úr skugga um umfang svikanna að mati fundarmanna og aðstoða fólk við að leita réttar síns. Á fundinum á einhver viðstaddra að hafa bent á að hér á landi væru um 25 þúsund skráðir bílaleigubílar en grunur um falsaða kílómetrastöðu beindist aðeins að nokkur hundruð þeirra.

„Ákveðið var að hittast aftur fljótlega til að meta framvinduna. Vonast er til að þetta samstarf marki upphaf að vinnu til framtíðar til að tryggja sem best hag neytenda á markaði með alla notaða bíla,“ segir auk þess í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Grunaði Procar aldrei og telur sig illa svikinn

Jóhann Lövdal, eigandi bílasölunnar Bílamarkaðarins, segir tíðindin af áralöngu svindli Procar þar sem stöðu á kílómetramæli bílaleigubíla var breytt, áfall fyrir stétt bílasala.

Ekkert eftirlit með kílómetrastöðu bíla

Samgöngustofa segir koma til greina að svipta bílaleigur rekstrarleyfi sem ekki geta veitt fullnægjandi skýringar á misræmi upplýsinga um kílómetrastöðu bíla. Skoðun fréttastofu leiðir í ljós að mikill munur getur verið á stöðu mæla í bílum á milli skoðana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×