Fyrstu útköll björgunarsveita vegna veðursins sem nú gengur yfir landið komu klukkan fjögur í nótt að sögn Davíðs Már Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Annars vegar voru björgunarsveitarmenn kallaðir út á Höfn í Hornafirði vegna foktjóns og hins vegar fóru björgunarfólk til móts við ferðamenn sem voru í bíl á milli Hafnar og Djúpavogs en komust hvorki lönd né strönd vegna veðursins. Þá höfðu rúður brotnað í bíl þeirra.
Davíð segir að björgunarfólk hafi farið og sótt þau og ekið þeim til Hafnar.
Mjög slæmu veðri er spáð í dag á norðan- og austanverðu landinu og eru gular og appelsínugular viðvaranir í gildi.

