Skoðun

Þegar þeim sýnist

Aron Leví Beck skrifar

Nýverið sendu þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, og Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, frá sér frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu. Ef frumvarpið verður samþykkt þá tekur Alþingi skipulagsvaldið frá Reykjavík á stóru svæði í Kvosinni en Reykjavíkurborg á tæplega helming eigna á þessu tiltekna svæði. Alþingislóðin er um 18,5 prósent af svæðinu og þá eru rúm 35 prósent lóða í einkaeigu. Þannig er lóð Alþingis einungis tæpur fimmtungur af því svæði sem lagt er til að tekið verði undan skipulags- og byggingarvaldi Reykjavíkurborgar.

Þetta sendir mjög slæm skilaboð til allra sveitarfélaga á Íslandi. Ákveðnum aðilum í þinginu finnst borgin ekki vinna hlutina nákvæmlega eins og þeir sjálfir myndu gera en byggja svo mál sitt á litlum sem engum rökum. Að Alþingi geti komið og hrifsað skipulagsvald af sveitarfélögum þegar þeim sýnist er grafalvarlegt mál.



Ég held að þetta endurspegli öðru fremur yfirgripsmikla vanþekkingu á skipulagsmálum. Í stjórnarskránni er talað um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og að skipulags- og mannvirkjamál séu almennt í höndum sveitarfélaga. Ég sé ekki hvernig þetta tiltekna svæði eigi að lúta öðrum lögmálum og fá einhverja sérmeðferð. Þetta eykur flækjustig og er aðför að lýðræðislega kjörnum fulltrúum í borgarstjórn.



Breytingar á skipulagsvaldi í tilteknum málum – til þess einfaldlega að koma sínum málum áfram – eru hvorki fagleg né lýðræðisleg vinnubrögð. Ef frumvarpið verður að lögum er um að ræða verulegt inngrip ríkisins í skipulagsvald Reykjavíkurborgar. Sjálfstæðisf lokkurinn sat hjá í atkvæðagreiðslu um þetta mál í borgarráði. Ef það er eitthvað sem kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn hafa alltaf verið sammála um þá er það að standa vörð um skipulagsvald.



Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×