Þótt þrettán dagar séu í hrekkjavöku hafa dýrin í Detroit-dýragarðinum tekið forskot á sæluna. Tígrisdýr, nashyrningar og önnur dýr sem búa í dýragarðinum í þessari stærstu borg Michigan-ríkis Bandaríkjanna hafa engan áhuga á því að bíða eftir sjálfri hrekkjavökunni og voru strax farin að skemmta sér í vikunni.
Dýragarðurinn hefur sett sér það markmið að breyta athvörfum dýranna reglulega og bæta þau. Þess vegna hafa starfsmenn nú verið í óða önn við að færa dýrunum hrekkjavökugrasker til þess að leika sér með.
Og þótt grímubúningar spili vissulega stórt hlutverk í hrekkjavökusiðum Bandaríkjamanna gera margir sér grein fyrir því að hátíðin snýst um nammi. Þess vegna býður dýranna óvæntur glaðningur þegar þeim hefur tekist að opna graskerin.
Dýrin léku sér með grasker í aðdraganda hrekkjavöku
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
