Erlent

Mattis hæddist að Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
James Mattis.
James Mattis. AP/Mary Altaffer
James Mattis, fyrrverandi hershöfðingi og fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hæddist að Donald Trump í gærkvöldi. Það gerði hann eftir að forsetinn kallaði Mattis „ofmetnasta hershöfðingja“ sögunnar á undarlegum fundi í Hvíta húsinu í fyrradag.

Þar gagnrýndi Trump sinn fyrrverandi varnarmálaráðherra og sagði hann ekki hafa verið nógu harðan í horn að taka.

Sjá einnig: Sagan á bakvið myndina umdeildu



Í ræðu á góðgerðarviðburði í New York í gær sagðist Mattis ánægður með að Trump hefði sagt sig vera ofmetinn. Hann hefði sagt það sama um leikkonuna Meryl Streep.

„Ætli það geri mig ekki að Meryl Streep hershöfðingjanna,“ sagði Mattis. „Það hljómar nokkuð vel, finnst mér:“

Það næsta sem Mattis sagði um Trump, er erfitt að þýða yfir á íslensku svo það haldi samhengi sínu.

Mattis sagði í ræðu sinni að hann hefði verið spurður hvort ummæli forsetans færu fyrir brjóstið á honum. Hann sagði svo ekki vera. Hann hefði unnið fyrir sporum sínum, eða „spurs“, á vígvöllum. Donald Trump hefðu fengið sína spora í bréfi frá lækni.

Eins og frægt er komst Trump hjá herskyldu í Víetnam stríðinu með því að fá læknisleyfi frá herskyldu vegna hælspora, sem á ensku kallast „bonespurs“. Það að vinna sér inn spora sína (e. Earn your spurs) er gamalt máltæki varðandi það að sanna sig. Innan herafla Bandaríkjanna má rekja rætur þess til riddaraliðsins.

Mattis var þó ekki hættur að hæðast að Trump. Hann sagðist viss um að eini meðlimur herafla Bandaríkjanna sem Trump taldi ekki vera ofmetinn væri Sanders offursti. Colonel Harland David Sanders var, eins og margir vita ef til vill, stofnandi Kentucky Fried Chicken. Hann var þó ekki í rauninni offursti og var titill hans heiðursnafnbót sem veitt var af ríkisstjóra Kentucky.


Tengdar fréttir

Mattis hættir sem varnarmálaráðherra

Samband hans og Trump hefur þó beðið hnekki að undanförnu og var hann verulega andsnúinn ákvörðun Trump að draga hermenn Bandaríkjanna í skyndi frá Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×