Golf

Tiger Woods ætlar sér að keppa á Ólympíuleikunum á næsta ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods.
Tiger Woods. Getty/Andrew Redington
Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods er með það markmið að keppa um Ólympíugull á ÓL í Tókýó næsta sumar en hann missti af síðustu leikum vegna meiðsla.

Golf var aftur með á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 eftir 112 ára fjarveru. Woods þurfti að gangast undir fjórar bakaðgerðir á árunum 2014 til 2017 og var ekki leikfær á leikunum í Ríó.

Woods átti aftur á móti eftirminnilega endurkomu í hóp þeirra bestu á þessu ári og vann Mastersmótið meðal annars í apríl.





„Að keppa á Ólympíuleikum er stórt markmið hjá mér,“ sagði Tiger Woods sem hefur unnið allt á sínum golfferli nema Ólympíugull. Sigurinn á Mastersmótinu var fimmtándi risatitill hans.

„Ég sé mig ekki fá fleiri tækifæri en á næsta ári. Eftir fjögur ár þá verð ég orðinn 48 ára gamall,“ sagði Tiger en bætti við: „Það verður erfitt að vera einn af bestu bandarísku kylfingunum á þeim aldri,“ sagði Woods.

Fimmtán bestu kylfingar heimsins komast á Ólympíuleikana en hver þjóð getur þó ekki verið með fleiri en fjóra keppendur. Hinir sextíu keppendurnir koma síðan frá þjóðum sem eiga ekki fleiri en tvo keppendur meðal þeirra fimmtán bestu. Þær þjóðir mega þó aðeins vera með tvo keppendur hver.

Tiger Woods er eins og er í níunda sæti á heimslistanum en hins vegar eru fimm Bandaríkjamenn fyrir ofan hann á heimslistanum. Bretinn Justin Rose vann Ólympíugullið á leikunum í Ríó árið 2016.

„Ég fór á mína fyrstu Ólympíuleika þegar þeir fóru fram í Los Angeles árið 1984. Golf var ekki inn á leikunum í öll þessi ár en nú gefst þar kjörið tækifæri fyrir okkur kylfinga til að hjálpa íþróttinni okkar að vaxa enn frekar. Ég vil fá að vera hluti af því,“ sagði Tiger.

Það er ljóst að ef Tiger Woods verður með á ÓL í Tókýó þá mun það stórauka áhuga manna á golfkeppni Ólympíuleikanna og skapa um leið allt aðra umgjörð um keppnina en á leikunum 2016 þegar margir af bestu kylfingum heims vildu ekki vera með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×