Innlent

Íslenska ríkið braut á mannréttindum Bjarna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bjarni Ármannsson.
Bjarni Ármannsson. Fréttablaðið/Vilhelm
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn mannréttindum Bjarna Ármannssonar. Ríkið hafi brotið gegn fjórðu grein sjöunda samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu með því að refsa Bjarna tvisvar fyrir sama brot.

Í dómnum, sem kveðinn var upp í dag, kemur einnig fram að íslenska ríkið hafi verið dæmt til þess að greiða Bjarna fimm þúsund evrur í miskabætur, eða um 680 þúsund íslenskar krónur, og 29800 evrur, rúmar fjórar milljónir króna, í málskostnað. Skuli umræddar bætur og kostnaður greiðast innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu dómsins.

Bjarna var tilkynnt í ársbyrjun 2012, eftir rannsókn skattrannsóknarstjóra, að skattar hans hefðu verið endurákvarðaðir vegna vantalinna fjármagnstekna í tengslum við sölu hlutabréfa sem hann eignaðist við starfslok hjá Glitni. Auk þess þurfti hann að borga 25 prósenta álag. Bjarni greiddi endur­álögðu skattana auk álagsins í kjölfarið.

Bjarni var svo dæmdur í héraðsdómi í júní 2013 í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða tæpar 39 milljónir króna í sekt.

Dómurinn var staðfestur í Hæstarétti sem lengdi dóminn í átta mánuði en lækkaði sektina um þrjár milljónir króna. Bjarni taldi að með þessu hafi honum verið refsað tvisvar fyrir sama brotið en slíkt er óheimilt samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×