Viðskipti innlent

Lögmannsstofurnar BBA Legal og Fjeldsted & Blöndal sameinast 

Hörður Ægisson skrifar
Sameinuð lögmannsstofa verður til húsa í turninum við Höfðatorg.
Sameinuð lögmannsstofa verður til húsa í turninum við Höfðatorg.
Lögmannsstofunar BBA Legal og Fjeldsted & Blöndal, tvær af stærri stofum landsins, hafa gengið frá samkomulagi um sameiningu. Áætlað er að samruninn muni taka gildi í haust, samkvæmt heimildum Markaðarins. Samanlögð velta félaganna var um 860 milljónir króna í fyrra.

Sameinuð lögmannsstofa fyrirtækjanna verður í turninum við Höfðatorg þar sem BBA Legal er nú til húsa. Þá verður starfrækt skrifstofa í London í gegnum dótturfélag sem verður stýrt af Gunnari Þór Þórarinssyni, hæstaréttarlögmanni, en hann gekk nýlega til liðs við Fjeldsted & Blöndal.

Helstu hluthafar BBA Legal, hvor um sig með rúmlega 21 prósenta hlut, eru þeir Einar Baldvin Árnason, Baldvin Björn Haraldsson, Ásgeir Árni Ragnarsson og Atli Rafn Þorbjörnsson. Í árslok 2018 störfuðu átján manns hjá BBA Legal og námu tekjur stofunnar um 490 milljónum króna.

Hagnaður lögmannsstofunnar var ríflega 88 milljónir króna og jókst um 12 milljónir frá fyrra ári. Þannig nam hagnaður á hvern af stærstu eigendum félagsins því um 18,5 milljónum króna.

Eigendur Fjeldsted & Blöndal, sem fækkaði úr fjórum í þrjá í fyrra, eru þeir Halldór Karl Halldórsson, sem er jafnframt framkvæmdastjóri stofunnar, Hafliði K. Lárusson og Þórir Júlíusson. Rekstrartekjur stofunnar voru samtals 369 milljónir í fyrra og héldust nánast óbreyttar á milli ára. Stöðugildi á Fjeldsted & Blöndal voru að meðaltali ellefu talsins á liðnu ári.

Hagnaður lögmannsstofunnar, sem gengur iðulega undir nafninu Fjeldco, nam rúmlega 114 milljónum króna á árinu 2018 og minnkaði um fimm milljónir á milli ára. Nam hagnaður á hvern eiganda vegna afkomu síðasta árs því um 38 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×