Forsætisráðherrann var til viðtals í Reykjavík síðdegis í dag þar sem hún sagði launahækkunina ekki endurspegla þróun launa annars staðar í samfélaginu.
„Samkvæmt fréttum er þetta 82 prósenta hækkun frá árinu 2017 sem er auðvitað úr öllu samræmi við launaþróun í samfélaginu, hvort sem litið er til almenna eða opinbera markaðarins.“
Katrín segir þingið vera með til meðferðar frumvarp frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem gert sé ráð fyrir því að laun æðstu embættismanna ríkisins fylgi opinberri launaþróun.
„Það er tilraun til þess að marka skýra stefnu um það að hið opinbera eigi ekki að vera leiðandi í launaþróun. Við erum hér með starfskjarastefnu fyrir opinber fyrirtæki þar sem er talað um það að laun eigi að vera hófleg og samkeppnishæf. Ég hlýt að spyrja hvort að 82 prósenta launahækkun teljist hófleg í einhverjum veruleika og sömuleiðis ef við erum að tala um að laun séu samkeppnishæf, við hvað er þá verið að miða?“ spyr Katrín og bendir á að laun Lilju séu mun hærri en laun fjármála- og efnahagsráðherra sem fari þó með stjórn bankamála í landinu.

„Ég tel að stjórnvöld þurfi að setja sér skýrari starfskjarastefnu þar sem það er hreinlega skrifað út hvaða starfskjarastefnu þessi opinberu fyrirtæki eigi að fylgja, í ljósi þess að fyrirkomulagið er þannig að það er einhver armslengd frá ríki til stjórnar þessa fyrirtækja. Ef þau telja að þetta sé í samræmi við hóflega og samkeppnishæfa launastefnu þá þarf ríkið greinilega að endurskoða þessa starfskjarastefnu,“ sagði Katrín.
Viðtalið við Katrínu í heild sinni má heyra í spilaranum hér að neðan.