Alls voru tíu vistaðir í fangageymslu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nótt en alls komu 105 mál til kasta lögreglunnar frá því klukkan fimm í gær til klukkan fimm í morgun. Einn var handtekinn, grunaður um líkamsárás á skemmtistað í miðborginni laust eftir klukkan eitt í nótt og annar nokkru síðar sem hafði verið til vandræða. Þá barst lögreglu einnig tilkynning um konu sem hafði einnig verið til vandræða. þegar lögregla kom á vettvang tók konan sig til og sparkaði í einn lögreglumannanna en hún var handtekin fyrir að sparka í lögreglumann við skyldustörf.
Konan var vistuð í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins. Þá bárust lögreglu margar kvartanir um hávaða í heimahúsum og frá skemmtistöðum. Lögreglan hafði einnig afskipti af þó nokkrum fjölda ökumanna sem grunaðir voru um ölvunar- eða fíkniefnaakstur. Þá kannaði lögreglan ástand og ökuréttindi 28 ökumanna á Hafnarfjarðarvegi milli klukkan tvö og þrjú í nótt. Af þeim voru fjórir handteknir vegna gruns um ölvun við akstur en voru þeir allir látnir lausir að lokinni sýnatöku.
Handtekin fyrir að sparka í lögreglu við skyldustörf
Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
