Erlent

Útiloka stór skemmtiferðaskip frá vissum stöðum í Feneyjum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Skemmtiferðaskip á siglingu um Feneyjar virðist fyrirferðarmikið á þessum fornfrægu söguslóðum.
Skemmtiferðaskip á siglingu um Feneyjar virðist fyrirferðarmikið á þessum fornfrægu söguslóðum. Nordicphotos/Getty
Skemmtiferðaskip sem eru yfir eitt þúsund tonn mega ekki sigla um tilteknar slóðir í Feneyjum frá og með september að því er ítölsk stjórnvöld hafa lýst yfir og BBC greint frá.

Ákvörðunin er sögð tekin vegna óhapps sem varð í júní í sumar er skemmtiferðaskipið MSC Opera rakst utan í bryggju og bát ferðamanna með þeim afleiðingum að fimm slösuðust.

Verndarsinnar gagnrýna stjórnvöld hins vegar fyrir að ganga ekki nógu langt; áætlanirnar dugi ekki til að sporna við neðansjávarrofi og mengun.

BBC segir gagnrýnendur lengi hafa haldið því fram að öldur sem skemmtiferðaskipin valda í síkjum Feneyja séu að naga undirstöður borgarinnar þar sem iðulega verða flóð. „Aðrir hafa einnig kvartað yfir því að að skipin dragi úr fegurð sögulegra staða í Feneyjum og færi með sér of marga ferðamenn,“ segir í frétt BBC.

Óhappið með hið 275 metra langa skemmtiferðaskip MSC Opera í Giudecca-síkinu í júní varð til þess að gagnrýnendur tvíefldust. Giudecca er ein af meginsiglingarleiðunum í Feneyjum og liggur fram hjá hinu víðfræga Markúsartorgi.

Sagt var frá óhappi MSC Opera á frettabladid.is daginn sem það gerðist, þann 2. júní síðastliðinn. Kom þar fram að skipstjórinn hefði missti stjórn á skipinu vegna vélarbilunar og að hann hefði kallað eftir dráttarbátum til að hægja á skipinu. Það hefði ekki tekist. „Þetta atvik staðfestir það sem við höfum sagt lengi: Skemmtiferðaskip ættu ekki að sigla niður eftir Giudecca-skipaskurðinum,“ vitnaði frettabladid.is þennan dag til Twitter­færslu Sergios Costa, umhverfisráðherra Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×