Innlent

540 ungmenni á Landsmóti Samfés

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá síðasta Landsmóti
Frá síðasta Landsmóti Mynd/Samfés
Á morgun mun Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar setja Landsmót Samfés í Varmárskóla. 540 þátttakendur frá 80 félagsmiðstöðvum af öllu landinu ásamt fulltrúum allra Norðurlandanna munu þar koma saman.

Á Landsmótinu verður unnið í fjölbreyttum smiðjum þar sem markmiðið er að ungmennin taki það sem þau læra með sér heim og miðli reynslu sinni og þekkingu í sinni félagsmiðstöð. Auk þess er rík áhersla á mikilvægi þess að hitta jafnaldra sína, kynnast nýju fólki og að allir skemmti sér sem best.

„Dagskráin um helgina er fjölbreytt, fróðleg og skemmtileg og má þar t.d. nefna að á föstudagskvöldið verður lýðræðisleg kosning í ungmennaráð Samfés sem skipar mikilvægan sess í málefnum ungmenna á Íslandi,“ segir í tilkynningu.

Á sunnudaginn verður svo Norrænt ungmennaþing en Guðni Th. Jóhannesson verður heiðursgestur. Þingið verður haldið undir nafninu „Mission (Im)possible 4.7“

„Ungmennaþingið sem norræn ungmenni á aldrinum 13-25 ára skipuleggja er hluti af formennskuverkefni Íslands 2019 þar sem markmiðið er að Norðurlöndin verði í fararbroddi við innleiðingu á fjórða heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna með sérstaka áherslu á markmið 4.7. Stjórn Samfés, ásamt fulltrúum ungmenna frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum fagna því að sérstök áhersla sé lögð á að börn og ungmenni komi að verkefninu með virkum hætti og unnið verði að innleiðingu á heimsmarkmiði 4.7 með lýðræðislegri þátttöku þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×