Innlent

Þurftu að snúa við vegna bilunar og lentu þá í veðrinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Áætlað er að önnur vél fljúgi til Óslóar með farþegana klukkan 12.
Áætlað er að önnur vél fljúgi til Óslóar með farþegana klukkan 12. Vísir/getty
Flugvél Icelandair sem lagði af stað til Óslóar um klukkan átta í morgun var snúið við eftir um klukkustundarflug vegna tæknibilunar. Vélin lenti á ný í Keflavík fyrir skömmu en farþegarnir bíða enn um borð vegna veðurs, sem hefur haft töluverð áhrif á flugferðir til og frá vellinum í morgun.

Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair staðfestir í samtali við Vísi að vélinni hafi verið snúið við í varúðarskyni vegna minniháttar bilunar. Áætlað er að önnur vél fljúgi til Óslóar með farþegana klukkan 12.

Farþegarnir voru enn um borð í vélinni nú snemma á tólfta tímanum vegna mikils vinds í Keflavík. Ásdís segir að vonast sé til að þeim verði bráðlega hleypt út en áætlað er að veður lægi nú um hádegisbil.

Bára Guðmundsdóttir, einn farþega með umræddu flugi Icelandair, var enn um borð í flugvélinni þegar Vísir náði tali af henni skömmu eftir klukkan ellefu. Hún segir að farþegar bíði nú í rólegheitum eftir því að komast í aðra flugvél.

Hún kveðst vonast til þess að lenda ekki í frekari hindrunum á leið til Óslóar, þar sem bíða hennar mikilvægir tónleikar í kvöld.

„Það hefur verið langþráður draumur að fara á Ariönu Grande-tónleika og þeir eru strax í kvöld, þannig að þetta er svolítið tæpt. Það er mikil sorg hérna hjá litla frænda mínum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×