Viðskipti innlent

Sjó­böðin á Húsa­vík fá ný­sköpunar­verð­laun ferða­þjónustunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður Sjóbaðanna á Húsavík og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands á verðlaunaafhendingunni í dag.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður Sjóbaðanna á Húsavík og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands á verðlaunaafhendingunni í dag. saf
Sjóböðin á Húsavík hlutu í dag nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar fyrir árið 2019 en verðlaunin eru veitt ár hvert þann 11. nóvember sem er afmælisdagur Samtaka ferðaþjónustunnar.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti fyrirtækinu verðlaunin við hátíðlega athöfn á Center Hotels við Laugaveg í Reykjavík en auk Sjóbaðanna voru tvö önnur fyrirtæki tilnefnd af dómnefnd til verðlaunanna, Hótel Ísafjörður og Icelandic Lava Show.

Í tilkynningu segir að dómnefnd hafi verið einróma um að veita Sjóböðunum viðurkenninguna að þessu sinni.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, var formaður dómnefndar en auk ennar sátu þau Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, og Helgi Þór Jónsson, eigandi Sponta og fulltrúi fyrirtækja innan SAF, í dómnefndinni.

Í tilkynningu frá SAF vegna verðlaunanna segir um Sjóböðin á Húsavík:

„Sjóböðin á Húsavík opnuðu síðla sumars árið 2018, en aðdragandinn er heldur lengri.

Um miðja síðustu öld var borað eftir heitu vatni á Húsavíkurhöfða. Upp kom vatn, sem reyndist vera heitur sjór sem hentaði ekki til húshitunar. Í staðinn var komið fyrir gömlu ostakari, þar sem Húsvíkingar gátu baðað sig sér til heilsubótar við kjörhitastig.

Á þessum grunni voru Sjóböðin á Húsavík sett á stofn. Nú geta gestir baðað sig á höfðanum við frábærar aðstæður. Vatnið er mjög heilsusamlegt, með mjög sérstöku efnisinnhaldi, sem sýnt hefur verið fram á að hefur góð áhrif á ýmis húðvandamál. Á meðan má svo njóta náttúru og ægifagurs útsýnis yfir Skjálfandaflóa og til fjalla.

Sjóböðin hafa fengið góðar viðtökur og fengið afar jákvæðar umsagnir bæði innlendra sem og erlendra gesta og hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum.

Eftir tilkomu Sjóbaðanna er það mál manna að ferðaþjónusta á Húsavík hafi tekið stórt stökk upp á við, þar sem þau hafa reynst sterkur segull allt árið um kring. Þau hafa án efa einnig mikla þýðingu fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í öllum landshlutanum.

Sjóböðin á Húsavík eru því verðskuldaðir handhafar nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar árið 2019.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×