Cristiano Ronaldo var langt frá því að vera hamingjusamur þegar hann var tekinn af velli í leik Juventus og AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.
Á 55. mínútu setti Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Juventus, Paulo Dybala inn á fyrir Ronaldo.
Portúgalinn strunsaði beint til búningsklefa og samkvæmt Sky á Ítalíu fór hann heim áður en leiknum lauk.
Þetta er annar leikurinn í röð þar sem Sarri tekur Ronaldo af velli. Hann gerði það einnig í leik Juventus og Lokomotiv Moskvu í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn.
Það er þó ekki hægt að segja annað en skiptingin hjá Sarri hafi heppnast því Dybala skoraði sigurmark Juventus gegn Milan. Með sigrinum komst Juventus aftur á topp ítölsku deildarinnar.
Eftir leikinn talaði Sarri um að Ronaldo hefði glímt við hnémeiðsli og því hafi hann verið tekinn af velli.
