Strákarnir í karlalandsliðinu í fótbolta æfa á slóðum opna tyrkneska mótsins í golfi sem lauk í gærkvöldi.
Það eru nokkrir áhugasamir kylfingar í íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og það er örugglega freistandi fyrir þá að spila einn hring hér í Antalya.
Þetta er algjör ferðamannaparadís og það vantar ekki golfvellina í kringum hótel íslenska liðsins.
Þetta eru líka mjög flottir golfvellir eins og sést á því að opna tyrkneska mótið í golfi, sem er hluti af Evrópumótaröðinni, fór fram á Montgomerie Maxx Royal golfvellinum hér í Antalya á síðustu dögum og lauk um helgina.
Golfvöllurinn þar sem að Englendingurinn Tyrrell Hatton vann sigur á opna tyrkneska mótinu í golfi eftir að hafa haft betur í sex manna umspili, er aðeins í fjórtán mínútna bílferð frá hóteli íslenska liðsins.
Hatton, Matthias Schwab, Kurt Kitayama, Victor Perez, Benjamin Hebert og Erik van Rooyen kláruðu allir hringina fjóra á tuttugu höggum undir pari og í fyrsta sinn í sögu Evrópumótaraðarinnar fór fram sex manna umspil.
Það var löngu komið myrkur hér í Antalya þegar Tyrrell Hatton tryggði sér sigurinn og lokaholurnar voru spilaðar í flóðljósum.
Stórt alþjóðlegt mót í næsta nágrenni við æfingabúðir íslenska liðsins
Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
