Óveðrið sem gekk yfir landið fyrr í mánuðinum olli milljónatjóni hjá starfsemi Samherja á Norðurlandi. Þetta kemur fram í Þorláksmessupistli Björgólfs Jóhannssonar starfandi forstjóra Samherja sem hann birti á vef fyrirtækisins í dag.
Samherji er með umfangsmikla starfsemi á Norðurlandi en Björgólfur segir að rafmagnsleysið í landshlutanum hafi orðið þess valdandi að vinnsla Samherja á Dalvík hafi legið niðri í fimm daga.
Tjón vegna þess hlaupi á tugum milljóna króna. Þó hafi tekist að afstýra tjóni vegna hráefnis og hluti starfsmanna á Dalvík hafi fært sig yfir til Akureyrar tímabundið. Vinnsla hófst svo aftur á Dalvík á þriðjudag.
Þá hafi blessunarlega ekki orðið tjón á tækjabúnaði og skipum. Björgólfur þakkar viðbragsaðilum fyrir starf sitt í rafmagnsleysinu, sem og starfsmönnum Samherja sem færðu sig tímabundið til Akureyrar.
Viðgerðum á Dalvíkurlínu lauk loks á miðvikudaginn síðasta en hún skemmdist mikið í aftakaveðrinu sem gekk yfir landið. Varðskipið Þór var sent til Dalvíkur til að sjá bænum tímabundið fyrir rafmagni og var ástandið einnig afar slæmt víðar í landshlutanum. Tjón á Norðurlandi vegna óveðursins er talið hlaupa á milljörðum.

