Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, leggst gegn tilvonandi frumvarpi um lækkun erfðafjárskatts. Hann segir að fjármagns- og eignaskattar séu skattheimtuform 21. aldarinnar því með aukinni sjálfvirknivæðingu muni ójöfnuður aukast.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um þrepaskiptingu og lækkun erfðafjárskatts. Í dag er 10 prósent skattur en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hann taki árlegum breytingum. BSRB hefur sent inn umsögn og varað við frumvarpinu, það veiki skattstofn ríkisins um 2 milljarða.
Jón Þór telur að hækka eigi erfðafjárskattinn en vill ekki nefna neina tölu í því samhengi. Í Bretlandi er erfðafjárskatturinn 40 prósent og í Danmörku er hann 15-36 prósent en makar undanþegnir. Jón telur að vegna sjálfvirknivæðingarinnar sé brýnt að stokka upp skattkerfið.
„Sjálfvirknivæðingin ýtir undir misskiptingu því að skilvirkniaukningin skilar sér að mestu leyti til fjármagnsins,“ segir hann og vísar í greinar The Economist. „Þar segir að öll lönd ættu að hækka eignarskatta og erfðafjárskatta. Erfðafjárskattur er skilvirkur skattur og vinnur gegn því að ójöfnuður færist milli kynslóða.“
Erfðafjárskattur hefur verið umdeildur á undanförnum árum og meðal annars kallaður „dauðaskattur“ af íhaldsmönnum í Bandaríkjunum. Sagt er að þegar sé búið að greiða skatta af eignunum. Jón Þór telur að skattheimtan sé viðkvæmari en ella vegna þess að andlát sé í spilinu.
„Þetta er ekkert öðruvísi en virðisaukaskattur. Annar einstaklingur er að þéna peningana,“ segir Jón Þór en telur réttlátt að persónuafsláttur sé hafður á skattheimtunni.
Innlent