Innlent

Héraðsdómur hafnaði miskabótakröfu Annþórs

Eiður Þór Árnason skrifar
Annþór taldi sig eiga rétt á bótunum vegna vistar á öryggisgangi á Litla hrauni.
Annþór taldi sig eiga rétt á bótunum vegna vistar á öryggisgangi á Litla hrauni. Fréttablaðið/Eyþór
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag 64 milljón króna miskabótakröfu sem Annþór Kristján Karlsson krafðist þess að fá greidda úr ríkissjóði. Annþór taldi sig eiga rétt á bótunum vegna eins og hálfs árs vistar á öryggisgangi á Litla hrauni.

Annþór og Börkur Birgisson voru vistaðir þar á meðan þeir voru grunaðir um að hafa veitt fanga á Litla hrauni áverka sem leiddu til dauða hans árið 2012. Þeir voru ákærðir fyrir umrædda líkamsárás en voru sýknaðir í Hæstarétti í mars 2017.

Sjá einnig: Viðtal við Annþór: Feginn að fimm ára harmleik sé lokið

Í kjölfarið krafðist Annþór miskabóta vegna öryggisvistarinnar og dráttar á rannsókn málsins, útgáfu kæru og málsmeðferð fyrir dómi.

Héraðsdómur vísaði í dómi sínum í dag til þess að ákvörðunin um að vista Annþór á öryggisgangi hafi verið tekin á grundvelli sjónarmiða um öryggi og allsherjarreglu í fangelsinu. Dómari vísaði einnig til þess að Annþór hafi þegar fengið bætur vegna símhlustunar, gæsluvarðhaldsvistar og hlerunar á öryggisgangi á meðan rannsókn á málinu stóð.

Í dómnum er forstöðumaður fangelsisins sagður mega flytja fanga milli deilda eða klefa í öryggisskyni eða vegna sérstakra aðstæðna samkvæmt lögum. Því hafi honum verið leyft að vista Annþór á öryggisgangi á þeim grundvelli að með því ætti að reyna að vernda aðra fanga fyrir hættu sem kynni að stafa af honum.

Dómurinn fékk ekki séð að neitt hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að framgangur málsins hafi verið með óeðlilegum hætti. Hvorki héraðsdómur né Hæstiréttur hafi gert athugasemdir við þann tíma sem rannsókn og meðferð málsins tók í dómum sínum í málinu.


Tengdar fréttir

Annþór laus við ökklabandið

Annþór Kristján Karlsson, sem undir lok árs 2012 var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir hættulegar líkamsárásir, losnaði við ökklabandið sitt í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×