Innlent

Blaðamenn og fréttastjórar mbl.is ítreka vonbrigði sín

Birgir Olgeirsson skrifar
Höfuðstöðvar Morgunblaðsins í Hádegismóum.
Höfuðstöðvar Morgunblaðsins í Hádegismóum. Vísir/Vilhelm
Blaðamenn og fréttastjórar mbl.is hafa ítrekað vonbrigði sín í garð stjórnenda Morgunblaðsins vegna frétta sem birst hafa á vef fjölmiðilsins í dag á meðan verkfallsaðgerðir hafa staðið yfir. 

Lögðu blaðamenn og fréttastjórar mbl.is niður störf klukkan tíu í morgun í samræmi við boðaða vinnustöðvun Blaðamannafélags Íslands. Á meðan vinnustöðvuninni stóð birtust fréttir á mbl.is sem skrifaðar voru af öðrum blaðamönnum Árvakurs og lausapennum til klukkan 18, þegar löglegum boðuðum aðgerðum blaðamanna lauk. 

Blaðamannafélag Íslands hefur nú þegar stefnt Ríkisútvarpinu og Morgunblaðinu til félagsdóms vegna meintra brota sem eiga að hafa verið framin á meðan vinnustöðvun stóð yfir síðastliðinn föstudag. 

„Við undirrituð ítrekum áður yfirlýst vonbrigði okkar með þessar aðgerðir, sem álitnar eru verkfallsbrot af Blaðamannafélagi Íslands og verða teknar fyrir í félagsdómi. Við teljum þær varpa rýrð á fyrirtækið sem við störfum hjá og að þær séu ekki gott innlegg í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir,“ segir í yfirlýsingunni frá blaðamönnum og fréttastjórum mbl.is

Verkfallsboðunin náði yfir fréttamenn, ljósmyndara og myndatökumenn á vefmiðlum sem starfa á Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, RÚV og Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×