Manchester United skipti um hótel á Marbella á Spáni vegna ótta við Covid19-veiruna.
United-liðið nýtti tækifærið í vetrarfríinu og skellti sér í sólina til Spánar.
Enska liðið ákvað hins vegar að skipta um hótel á Marbella eftir upp komst að kínverska liðið Dalian Yifang, sem Rafa Benítez stýrir, var á hótelinu sem United hafði pantað vikuna áður.
United fann því annað hótel í Marbella, Kempinski. Það væsir væntanlega ekki um strákana hans Ole Gunnars Solskjær þar en Kempinski er glæsilegt fimm stjörnu hótel.
Odion Ighalo, sem United fékk á láni frá kínverska liðinu Shanghai Shenhua, fór ekki með liðinu til Marbella þar sem óttast var að honum yrði ekki hleypt aftur inn í Bretland.
Ighalo er núna í sóttkví og hefur ekki enn mátt koma á æfingasvæði United vegna ótta við að hann beri með sér Covid19-veiruna.
Nígeríski framherjinn þarf að vera í 14 daga sóttkví til að öruggt sé að hann beri Covid19-veiruna ekki með sér. Hann mun væntanlega æfa með United-liðinu í fyrsta sinn um helgina.
Fyrsti leikur United eftir vetrarfríið er gegn Chelsea á Stamford Bridge á mánudagskvöldið.
United skipti um hótel vegna ótta við Covid19-veiruna

Tengdar fréttir

United bannaði leikmanni að mæta á æfingasvæðið vegna ótta við kórónaveiruna
Odion Ighalo hefur verið leikmaður Manchester United í næstum því tvær vikur en hefur enn ekki æft með liðsfélögum sínum. Hann mátti nefnilega ekki koma á æfingasvæði félagsins vegna ótta við að hann beri með sér kórónaveiruna.