Þrjú af bestu knattspyrnulandsliðum Evrópu mæta á Laugardalsvöll í haust þegar keppt verður í Þjóðadeild UEFA í fótbolta karla.
Dregið verður í riðla í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 17 á morgun. Ísland leikur í A-deild líkt og haustið 2019 þegar keppnin fór fyrst fram, þrátt fyrir að hafa tapað öllum sínum leikjum, því A-deildin var stækkuð úr 12 liðum í 16. Ísland er hins vegar í fjórða og neðsta styrkleikaflokki, ásamt Króatíu, Póllandi og Þýskalandi.
A-deild
Flokkur 1: Portúgal, Holland, England, Sviss
Flokkur 2: Belgía, Frakkland, Spánn, Ítalía
Flokkur 3: Bosnía, Úkraína, Danmörk, Spánn
Flokkur 4: Króatía, Pólland, Þýskaland, ÍSLAND
Ísland fær því einn andstæðing úr flokki 1, einn úr flokki 2 og einn úr flokki 3. Engar aukareglur gilda um það hvaða þjóðir geta lent saman í riðli. Efsta lið hvers riðils kemst svo í fjögurra liða úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar í júní 2021.
Leikið verður heima og að heiman í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar og eru leikdagarnir því samtals sex:
Leikdagur 1: 3.–5. september 2020
Leikdagur 2: 6.–8. september 2020
Leikdagur 3: 8.–10. október 2020
Leikdagur 4: 11.–13. október 2020
Leikdagur 5: 12.–14. nóvember 2020
Leikdagur 6: 15.–17. nóvember 2020
Þjóðadeildin spilar einnig ákveðið hlutverk í undankeppni HM 2022 í Katar. Tvö lið með bestan árangur í Þjóðadeildinni, sem ekki komast á HM í gegnum hefðbundna undankeppni á næsta ári, komast í umspil með þeim 10 þjóðum sem verða í 2. sæti síns riðils í undankeppninni. Í umspilinu verður spilað í þremur fjögurra liða mótum um þrjú laus sæti, svipað og gert er í lok þessa mánaðar í umspili um sæti á EM.