Stykkishólmsbær segir ákvörðun ráðherra um stöðvun grásleppuveiða hafa áhrif á 150 störf í sveitarfélaginu. Formaður atvinnuveganefndar telur að ákvörðunin byggi ekki á nægilega vísindalegum grunni og hvetur ráðherra til að endurskoða.
Ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stöðvun veiða á grásleppu með litlum sem engum fyrirvara hefur vakið hörð viðbrögð. Bæjarráð Akraness mótmælir og krefst þess að ráðherra endurskoði ákvörðun sína. Bæjarstjórn Stykkishólsbæjar mótmælir einnig ákvörðuninni í ályktun þar sem meðal annars segir að takmörkunin muni að óbreyttu hafa áhrif á 150 störf á svæðinu. Í húfi séu verðmæti upp á hálfan milljarð króna.
Þá hefur fiskvinnslufyrirtækið Sæfrost í Búðardal sent opið bréf til atvinnuveganefndar þar sem gjörningurinn er sagður í „besta falli ömurleg stjórnsýsla. Ósanngirnið og óréttlætið sé svo mikið að menn séu í áfalli,“ líkt og það er orðað í bréfinu.
Atvinnuveganefnd fjallaði um málið í gær þar sem kallað var eftir sjónarmiðum ólíkra hagsmunaaðila. „Þetta kemur sér mjög illa fyrir mörg byggðarlög og einstaklinga að veiðar séu stoppaðar eins og gert var,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar.
Sjá einnig: Sjávarútvegsráðherra vill setja grásleppu í kvóta og telur meirihluta smábátaeigenda sammála
„Þetta er bara mikið ójafnræði og það hefði verið hægt að standa betur að því hvernig veiðum er stýrt,“ segir Lilja. Ákvörðun ráðherra byggði á því að fyrirséð þótti að veiðarnar myndu fljótlega nálgast ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um heildarafla á þessu fiskveiðiári.
„Ég hvet ráðherra til þess að skoða alla möguleika á að endurskoða þessa stöðu miðað við þessa miklu veiði á hrognkelsum í ár og það sé full innistæða fyrir því,“ segir Lilja.
Hún kveðst eiga von á því að nefndin muni áfram fjalla um málið. „Miðað við þá umfjöllun þá tel ég alveg einboðið að það þurfi að endurskoða þessa ráðgjöf. Því miður þá erum við ekki að byggja á nægjanlega vísindalegum gögnum og þessi stofn hefur ekki verið nægjanlega rannsakaður í gegnum árin,“ segir Lilja.