Erlent

Netanyahu lýsir yfir sigri

Samúel Karl Ólason skrifar
-Benjamin Netanyahu er ánægður með kosningarnar.
-Benjamin Netanyahu er ánægður með kosningarnar. AP/Ariel Schalit

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur lýst yfir sigri í kosningunum sem haldnar voru í gær. Þrátt fyrir það, gefur niðurstaðan þegar búið er að telja um 62 prósent atkvæða, til kynna að enn sé pattstaða í stjórnmálunum í Ísrael.

Likud-flokkur Netanyahu og bandamenn hans eru ekki líklegir til að ná meirihluta og geta þannig myndað ríkisstjórn. Þetta voru þriðju kosningarnar í Ísrael á einu ári þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn í hinum tveimur.

Miðað við stöðuna klukkan sjö í morgun var Likud flokkur Netanyahu með 28,5 prósent atkvæða og Bláa og hvíta bandalagið, sem leitt er af Benny Gantz, með 24,6 prósent.

Alls buðu 23 flokkar fram í kosningunum en einungis átta náðu yfir þau 3,25 prósent sem til þarf til að fá mann á þing.

Benjamin Netanyahu hefur starfað áfram sem forsætisráðherra, þrátt fyrir að hafa verið ákærður fyrir spillingu og að réttarhöldin gegn honum hefjist eftir tvær vikur. Hann hefur heitið því að mynda ríkisstjórn að þessu sinni og gera það hratt. Fréttir hafa borist af því að hann vilji mynda ríkisstjórn áður en réttarhöldin yfir honum hefjast.


Tengdar fréttir

Netanyahu hótar stríði á Gaza

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hótaði í dag stríði á Gaza-ströndinni ef eldflaugaárásir á Ísrael verði ekki stöðvaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×