Innlent

Ríkisstofnanir skila áætlunum of seint

Umhverfisráðuneytið skilaði engum gögnum til Ríkisendurskoðunar sem fellur það þunglega.
Umhverfisráðuneytið skilaði engum gögnum til Ríkisendurskoðunar sem fellur það þunglega. fréttablaðið/E.ól
Ríkisendurskoðun gagnrýnir þann misbrest sem er á því að stofnanir ríkisins skili rekstraráætlunum sínum á réttum tíma. Einnig að tvær af hverjum þremur stofnunum fari inn í fjárlagaárið án samþykktrar rekstraráætlunar.

Ríkisendurskoðun sendi 31. janúar fyrirspurn til allra ráðuneyta og óskaði eftir upplýsingum um skil, samþykkt og skráningu rekstraráætlana stofnana ríkisins. Skilafrestur var til 8. febrúar.

Skil og samþykkt áætlana eru gagnrýnd, en samtals var 152 áætlunum skilað fyrir tilskilin tíma eða 79% þeirra.

Aðeins þriðjungur áætlana hafði verið samþykktur af viðkomandi ráðuneyti sem eiga að hafa tekið afstöðu til þeirra fyrir miðjan janúar og samþykkja þær með eða án breytinga.

Ríkisendurskoðun tekur fram að þrátt fyrir að ekki sé farið að gildandi reglum sé ljóst að staðan sé miklu betri en hún var fyrir nokkrum árum. Til samanburðar er nefnt að í lok desember 2008 hafði aðeins 4% áætlana verið skilað. Í janúar 2009 var hlutfall samþykktra áætlana 6%, en var þriðjungur nú.

Staða þessara mála er mjög mismunandi eftir ráðuneytum. Forsætisráðuneytið stóð við alla tímafresti en umhverfisráðuneytið skilaði Ríkisendurskoðun engum gögnum. Er gerð við það alvarleg athugasemd en ráðuneytið segir að ekki hafi gefist tími til að taka upplýsingarnar saman. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×