Erlent

Fjárframlög Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna skorin niður um allt að helming

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Starfsmenn utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna hafa fengið fyrirmæli frá Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um að leita leiða til þess að skera niður fjárframlög bandaríska ríkisins til Sameinuðu þjóðanna um allt að helming að því er fram kemur í Foreign Policy.

Trump og ríkisstjórn hans eiga að kynna fjárlagafrumvarp næsta árs á fimmtudaginn. Gert er ráð fyrir því að í frumvarpinu verði lagt til allt að 37 prósenta niðurskurður til utanríkismála en óljóst er hvort að allur niðurskurðurinn vegna verkefna Sameinuðu þjóðanna komi fram strax. 



Fjárframlög Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna nema um 10 milljörðum dala á ári en niðurskurðurinn kæmi harðast niður á friðargæslunni, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF og þróunaraðstoðinni.

Richard Gowan, sérfræðingur í málefnum Sameinuðu þjóðanna, segir að jafnmikill niðurskurður og talið er að Trump vilji ráðast í muni skapa „kaos.“ Hann tekur Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna sem dæmi en það kostar 4 milljarða dollara að reka hana á ári hverju. Einn og hálfur milljarður hefur komið frá Bandaríkjunum og „slíkt gat er einfaldlega of stórt fyrir aðra til að fylla upp í,“ segir Gowan.

„Margfaldaðu þetta með öðrum hjálparstofnunum Sameinuðu þjóðanna og við munum horfa upp á algjört hrun í alþjóðlegri mannúðarstarfsemi eins og við þekkjum hana í dag.“

Niðurskurðurinn styrkir þá stefnu Trump að draga úr fjárframlögum til utanríkismála og veita meiri pening í Bandaríkjaher en undir lok síðasta mánaðar greindu yfirvöld frá því að niðurskurður til mannúðarmála erlendis myndi verða til þess að hægt yrði að eyða 54 milljörðum dala til viðbótar í herinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×