Innlent

Margir keyptu gjaldeyri í dag

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum heims lækkaði um allt að þrjú prósent í dag og þá var meira um að fólk væri að koma í útibú bankanna til að kaupa gjaldeyri. Sérfræðingur hjá Íslandsbanka segir erfitt að meta hvernig gengið muni þróast á næstu dögum.

Forystumenn ríkisstjórnin kynntu í gær þá ákvörðun um að afnema gjaldeyrihöftin og tekur þessi ákvörðun gildi á morgun. Markaðurinn brást strax við þegar opnað var fyrir viðskipti í morgun og byrjaði gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum að síga.

Krónan veiktist mest um allt að 4 prósent en styrktist hins vegar þegar leið á daginn. Þegar lokað var fyrir viðskipti hafði evran hækkað um 3 krónur eða 2,49 prósent. Pundið hækkaði um rúmar 4 krónur eða tæp þrjú prósent. Bandaríkjadollar um tæpar þrjár krónur eða 2,43 prósent og danska krónan um hálfa krónu eða 2,49 prósent.

Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar segir að breytingarnar í dag hafi ekki komið á óvart.

„Hér var áherslan fyrst og fremst að opna fyrir útflæði. Það eru ennþá ákveðnar hömlur á innflæði inn í íslensk ríkisskuldabréf sem menn hljóta í framhaldinu að fara að skoða,“ segir Páll.

Þá töluvert um að fólk væri að koma í útibú bankanna til að kaupa gjaldeyri og voru viðskiptin nokkuð meiri en á venjulegum degi samkvæmt upplýsingum frá bönkunum. Í flestum tilvikum var fólk að kaupa gjaldeyri vegna utanlandsferða og má ætla að margir óttist að krónan muni veikjast eitthvað á næstu vikum og vilji því ganga frá gjaldeyriskaupum sem fyrst.

Jón Bjarki Bentsson hjá Greiningu Íslandsbanka segir erfitt að meta hvernig gengið muni þróast á næstu dögum. „Ég held að við getum sé töluverðar sveiflur á næstu dögum,“ segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×