Fótbolti

Bastiu-menn sjá bara rautt á nýju ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er ljóst að Dragó-styttan í frönsku deildinni er ekki á leiðinni til Bastia-liðsins.

Fyrstu tveir mánuður nýja ársins hafa verið bókstaflega rauðir mánuðir hjá þessu liði frá eyjunni Korsíku í Miðjarðarhafinu.

SC Bastia hefur verið í efstu deild frá 2012 en liðið hafði þá unnið C-deildina og B-deildina tímabilin á undan.Á undanförnum fjórum tímabilum hefur liðið endaði í 10. til 12. sæti í frönsku deildinni og liðið var í 15.sæti í árslok 2016.

Nú tíu leikjum síðar er útlitið hinsvegar orðið slæmt eftir sannkallaða martraðarbyrjun á árinu 2017.

SC Bastia er komið niður í fallsæti eftir að hafa aðeins náð í 5 stig af 30 mögulegum í fyrstu tíu deildarleikjum sínum á árinu 2017.

Það sem er enn verra að liðið hefur fengið níu rauð spjöld í leikjunum tíu en aðeins skorað samtals sjö mörk. Markatalan er -20 (7-27).

Bastia tapaði 5-0 á móti EA Guingamp um helgina og þar fékk Gael Danic að líta rauða spjaldið.  Í leiknum á undan var það Nicolas Saint-Ruf sem var rekinn af velli. Enginn hefur þó verið öflugri í rauðu spjöldunum en hinn 32 ára gamli Yannick Cahuzac.

Yannick Cahuzac, sem er fyrirliði Bastia-liðsins, hefur tekið út bann í síðustu þremur leikjum en hann hefur endað þrjá af síðustu fjórum deildarleikjum sínum með því að vera sendur snemma í sturtu.

Cahuzac hefur alls fengið að líta fjögur rauð spjöld á tímabilinu en þrjú þeirra þó fyrir tvö gul spjöld.

Alls hefur SC Bastia fengið þrettán rauð spjöld á tímabilinu eða meiri en öll lið í fimm bestu deildum Evrópu á þessu tímabili. Rauðu spjöldin voru þó „bara“ fjögur um áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×