Innlent

Réðust á mann og hótuðu lögreglu

23 ára gamall Akureyringur hefur verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni með hótunum um ofbeldi og líflát. Einnig hlaut tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm 21 árs gamall Akureyringur fyrir þátttöku í árásinni. Dómurinn var kveðinn upp fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra sl. föstudag. Mennirnir tveir höfðu hlaupið uppi og ráðist á mann við Borgarbíó á Akureyri í júnílok á síðasta ári. Maðurinn sem ráðist var á hlaut af nefbrot, auk þess sem tvær tennur í efri gómi brotnuðu, fyrir utan skurðsár, mar og bólgur. Þegar lögreglu bar að var eldri árásarmaðurinn mjög æstur og hafði uppi miklar hótanir í garð lögreglu. Hótaði hann að drepa bæði lögreglumenn, börn þeirra og fjölskyldur. Þá mun hann hafa ausið skömmum og svívirðingum yfir alla sem nálægt honum komu. Mönnunum tveimur var gert að greiða manninum sem þeir réðust á rúmar 330 þúsund krónur með vöxtum og dráttarvöxtum, auk þess sem þeim var gert að greiða allan sakarkostnað, þar með talið laun verjenda sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×