Viðskipti innlent

Far­þegar um innan­lands­flug­velli ekki verið færri í minnst átta ár

Eiður Þór Árnason skrifar
Samdráttur hefur verið í innanlandsflugi síðustu ár.
Samdráttur hefur verið í innanlandsflugi síðustu ár. Vísir/vilhelm

Tólf prósenta samdráttur var í umferð um innanlandsflugvelli landsins á síðasta ári og hefur fjöldinn ekki verið lægri í minnst átta ár eða eins langt og tölur Isavia ná. Heildarfjöldi farþega til og frá flugvöllunum var um 697 þúsund í fyrra eða um 95 þúsund færri en árið áður. Ferðaþjónustumiðilinn Túristi greinir frá þessu.

Þess má geta að fyrrnefndar tölur telja ekki einungis farþega áætlunarflugs heldur líka farþega í millilandaflugi, einkaflugi og útsýnisflugi.

Isavia mun birta sundurliðaðar tölur í vor en síðustu ár hefur innanlandsflugið staðið undir um 90 til 98 prósentum af umferð um flugvellina, er fram kemur í frétt Túrista. Samdrátturinn var minnstur á Akureyrarflugvelli.

Árið 2018 voru farþegar í innanlandsflugi rúmlega 737 þúsund talsins og hafði þá fækkað frá árinu áður. Síðasta áratug hefur farþegum í innanlandsflugi fækkað um fimmtung og hafa stjórnvöld boðað aðgerðaráætlun sem er ætlað að styrkja grundvöll þess.

Meðal annars hefur verið lagt til að fargjöld verði niðurgreidd fyrir fólk sem búi fjarri höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

Vill að fólk verði hvatt til að fljúga innanlands

Skiptar skoðanir eru á milli þingmannanna Jóns Gunnarssonar, Sjálfstæðisflokki og Hönnu Katrínar Friðriksson, Viðreisn, um hvort ríkið eigi að greiða niður rekstrarkostnað innanlandsflugfélaga með nokkrum hætti.

Komi ekki til opinberra styrkja verði innanlandsflug skert

Gert er ráð fyrir að innanlandsflug til Egilsstaða og Ísafjarðar dragist saman um 10 til 15 prósent í vetur að sögn forstjóra Air Icelandair Connect. Hann segir að hið opinbera verði að koma að rekstri innanlandsflugs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×