Enski boltinn

Pavlyuchenko vill fá Arshavin til Tottenham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andrei Arshavin í leik með rússneska landsliðinu.
Andrei Arshavin í leik með rússneska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images
Roman Pavlyuchenko segist gjarnan vilja fá landsliðsfélaga sinn, Andrei Arshavin, til liðs við sig hjá Tottenham.

Arshavin var sterklega orðaður við Tottenham í sumar en talið er að félag hans, Zenit frá St. Pétursborg, hafi farið fram á of háa upphæð fyrir hann.

Hins vegar hefur Arshavin ítrekað að hann hafi engan áhuga á að spila áfram með Zenit og hann vilji fara frá félaginu þegar að félagaskiptaglugginn opnar í janúar næstkomandi.

„Ég hef ekki rætt við hann sjálfur en ég veit að það hafa átt sér stað umræður um að hann færi sig um set," sagði Pavlyuchenko í samtali við enska fjölmiðla.

„Það eina sem ég veit fyrir víst er að hann vill koma til góðs félags í Evrópu."

Sjálfur hefur Pavlyuchenko allur verið að koma til eftir fremur erfiða byrjun liðsins í haust og hefur hann þegar skorað sjö mörk á tímabilnu. Hann segir að samstarf sitt og Darren Bent sé sífellt að batna.

„Það er of snemmt að fella dóm um mína samvinnu með Bent. Við erum þó duglegir að vinna saman í æfingaleikjum og gefum mikið á hvorn annan. Svo virðist sem að við náum ágætlega saman."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×