Fjórir bílaframleiðendur sem eiga keppnislið í Formúlu 1-mótaröðinni hafa fordæmt hegðun Max Mosley, forseta Alþjóða akstursíþróttasambandsins.
News of the World greindi frá því um helgina að Mosley hafi tekið þátt í kynlífssvalli með fimm vændiskonum þar sem líkt var við hegðun nasista.
Hann sagði sjálfur í yfirlýsingu í gær að hann ætlaði að halda áfram hjá FIA enda hafi hann hlotið stuðning víða að til þess.
Nú virðist hins vegar síaukinn þrýstingur að hann láti af störfum. BMW og Marcedes sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir sögðu hegðun Mosley honum til háborinnar skannar.
Honda og Toyota tóku í svipaðan streng.
Mosley hefur svarað og sagðist bera fullan skilning á viðbrögðum BMW og Mercedes-Benz, sér í lagi í ljósi sögu fyrirtækjanna á millistríðsárunum.
„Hins vegar höfðu þau ekki samband við mig áður en þau gáfu frá sér yfirlýsinguna og spurðu hvort að ásakanir væru sannar," sagði Mosley en hann hefur áður neitað því að neitt nasistalegt hafi átt sér stað í áðurnefndu svalli.

