Innlent

Nefnd umhverfisráðherra kannar forsendur hálendisþjóðgarðs

Svavar Hávarðsson skrifar
Hálendisþjóðgarður yrði 40.000 ferkílómetrar að stærð.
Hálendisþjóðgarður yrði 40.000 ferkílómetrar að stærð. vísir/Vilhelm
Sett verður á fót nefnd, samkvæmt ákvörðun Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem falið verður að kanna forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu.

Nefndin á að draga saman helstu sjónarmið og fyrirliggjandi þekkingu er varðar nýtingu og vernd miðhálendisins, með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Miðhálendi Íslands er að mestu þjóðlendur þar sem íslenska ríkið er eigandi lands og hlunninda sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Fyrirsjáanlegt er að álag aukist á svæðinu með aukinni ásókn ferðamanna og því er mikilvægt að kanna hvaða stjórntæki séu ákjósanlegust til að stýra álagi til lengri tíma.

Í nefndinni munu sitja fulltrúar frá forsætisráðuneyti, Samtökum ferðaþjónustunnar, Bændasamtökum Íslands, Samorku, umhverfisverndarsamtökum, Samtökum útivistarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þá munu sérfræðingar ráðuneyta og stofnana starfa með nefndinni auk þess sem Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun veita ráðgjöf og upplýsingar.

Gert er ráð fyrir að nefndin skili greinargerð til ráðherra fyrir 1. nóvember 2016.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×