Erlent

Telja að eitrið hafi verið á útidyrahurðinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla hefur rannsakað heimili Skripal-fjölskyldunnar að undanförnu.
Lögregla hefur rannsakað heimili Skripal-fjölskyldunnar að undanförnu. Vísir/Getty
Breska lögreglan telur að Sergei Skripal og dóttir hans, sem nú liggja þungt haldin á spítala eftir taugaeitursárás í upphafi mánaðarins, hafi fyrst komist í snertingu við eitrið á útidyrahurð heimilis þeirra. BBC greinir frá.

Rannsókn lögreglu hefur beinst að nágrenni heimilis þeirra í Salisbury í Englandi, sem og þeim stöðum sem þau voru á, áður en þau fundust án meðvitundar á bekk fyrir utan veslunarmiðstöð í Salisbury.

Sérfræðingar lögreglunnar hafa undanfarnar vikur greint leifar taugaeitursins sem notað var á ýmsum stöðum í Salisbury, en mesta magn þess sem fundist hefur fannst nýverið á útidyrahurð heimilis þeirra.

Skripal er fyrrverandi rússneskur njósnari en hann var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa gefið leyniþjónustu Bretlands upplýsingar um útsendara Rússa í Evrópu.

Eins og greint hefur verið frá hafa um tuttugu ríki vísað rússneskum erindrekum úr landi vegna gruns um að rússnesk yfirvöld standi á bak við árásina á Skripal-feðginin. Eitrið sem notað var í árásinni má rekja til Rússa að sögn breskra yfirvalda. Yfirvöld í Rússlandi þvertaka fyrir að hafa haft eitthvað með árásina að gera.

Hefur yfir 100 erindrekum verið vísað frá vestrænum ríkjum en Rússar hafa heitið því að svara aðgerðunum af fullri hörku. Íslendingar taka þátt í þessum aðgerðum vestrænna ríkja gegn Rússum með því að hætta öllum tvíhliða samskiptum við Rússa auk þess sem ráðamenn héðan munu ekki mæta á heimsmeistaramótið í Rússlandi sem fram fer í sumar.


Tengdar fréttir

Segir litlar líkur á að Skripal-feðginin lifi af

Viktoria Skripal, frænka þeirra Sergei og Yuliu Skripal, segir litlar líkur á að feðginin lifi af en þau urðu fyrir taugaeitursárás í enska bænum Salisbury fyrr í mánuðinum. Viktoria segir batahorfurnar ekki góðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×