Innlent

Skattarannsóknarstjóri staðfestir að undanskotin hlaupi á hundruðum milljóna

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Skattrannsóknarstjóri hefur staðfest að fjárhæðir skattaundanskota þeirra mála sem embættið hefur rannsakað nemi hundruðum milljóna króna. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Tæplega hundrað manns hafa haft stöðu sakbornings í rannsóknum skattrannsóknarstjóra á aflandsgögnum og hafa 46 stórvægileg brot verið send til saksóknara.

Sjá einnig: Ríkisstjórnin veitir 37 milljónir til þess að kaupa skattagögn

Skattrannsóknarstjóri keypti gögn í fyrra sem innihalda upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum.

Gögnin voru keypt fyrir 37 milljónir íslenskra króna en að sögn skattrannsóknarstjóra er sú fjárhæð ívið lægri en þær fjárhæðir sem Íslendingar hafa stungið undan skatti í gegnum aflandsfélög. Upphæð hvers máls um sig geti numið frá tugum til hundruða milljóna. 

Brotin geta varðað allt að sex ára fangelsi

Í frétt RÚV segir jafnframt að formleg rannsókn sé hafin á 108 málum í tengslum við Panamaskjölin. Einhver málanna höfðu þegar verið á borðum embættisins en 34 mál bættust við eftir að skattrannsóknarstjóri keypti umrædd gögn í kjölfar Panamalekans í vor.

Brotin 46 sem skattrannsóknarstjóri hefur vísað til saksóknara varða við almenn hegningarlög. Viðurlög við slíkum brotum eru allt að sex ára fangelsisvist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×