Innlent

Handtekinn með riffil og tugi skota í Nauthólsvík

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Jóhann K. Jóhannsson skrifa
Jóhann Karl Þórisson er aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhann Karl Þórisson er aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Jói K.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru kallaðar út klukkan fimm í morgun vegna afar ölvaðs manns sem var á gangi í Nauthólsvík með riffil.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að tilkynning hafi borist frá einstaklingi sem sá mann með riffil á röltinu.

„Þetta var svona hálf ótrúverðugt en það kom á daginn að það var ansi ölvaður aðili af erlendu bergi brotinn sem gekk þarna um með stóran riffil með sjónauka og öllu,“ segir Jóhann.

Sérsveitin var fengin í útkallið og vopnaðist hún.

„En um leið og hann sá lögregluna þá kastaði hann frá sér vopninu og lagðist niður,“ segir Jóhann.

Aðspurður hvort byssan hafi verið hlaðin segir Jóhann:

„Það voru skot í rifflinum og svo var hann með nokkra tugi skota með sér en hann segist hafa fundið þetta á förnum vegi.“

Maðurinn var handtekinn og sefur nú úr sér en hann var verulega ölvaður. Jóhann segir vegfarendur ekki hafa verið skelkaða.

„Nei, þetta var klukkan fimm í nótt. Það voru tveir sem sáu hann, þessi sem tilkynnti og þegar við komum á staðinn þá mættum við reiðhjólamanni sem hafði hjólað fram hjá honum,“ segir Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×