Jón Gerald Sullenberg segist feginn að hafa sloppið við ákæru í Baugsmálinu. Hann segir forstjóra Kaupþings hafa reynt að kaupa sig til að falla frá málinu með boði um tvær milljónir bandaríkjadala. Þessu neitar Kaupþing.
„Hvorki forstjóri Kaupþings banka né aðrir starfsmenn hans hafa nokkurn tímann boðið Jóni Gerald Sullenberger greiðslur fyrir að draga mál sitt gagnvart Baug til baka." Þetta segir í yfirlýsingu frá Kaupþingi vegna ásakana Jóns Geralds Sullenbergers um að forstjóri Kaupþings hafi boðið honum tvær milljónir bandaríkjadala ef hann félli frá málinu.
Jón Gerald sagði í samtali við fréttastofu að hefð væri fyrir því að að menn væru keyptir til þagnar hér á landi. Hann sagði:
„Ég fékk símtal frá forstjóra Kaupþings í lok árs 2002 þar sem hann býður mér tvær milljónir dollara fyrir að falla frá málinu. Þetta virðist vera íslensk hefð, að kaupa menn til þagnar. Ég get bent á fyrrum forstjóra Flugleiða Ragnhildi Geirsdóttur. Hún hætti allt í einu og fékk fyrir það 200-250 milljónir og ekki hefur heyrst í henni síðan. Ég tel þetta mjög alvarlegt mál."
Jón Gerald sagðist hafa verið að stíga um borð í flugvél þegar hann fékk umrætt símtal frá forstjóra Kaupþing. Bankinn segir að ásökunin sé fráleit.
Jón Gerald sagði í samtali við fréttastofu að Baugur hefði fengið tæplega fjögur hundruð milljóna króna lán hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Bréf í Arcadia hafi verið sett sem veð fyrir láninu. Baugur hafi fengið lán út á sömu bréf hjá Deutsche bank á tímabilinu. Þetta hafi verið með ólíkindum.
Jón Gerald telur dómurinn gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni alltof vægan. Hann skorar á yfirvöld að leggja meira fé til fjármálaeftirlitsins og annarra sem gæta eftirlitsskyldu með almenningshlutafélögum. Það verði gert til að fyrirbyggja að forstjórar misnoti fyrirtækin í eigin þágu.
Þá segir Jón Gerald: „Ég skora á alla fjárfesta sem eiga fjármagn í fyrirtækjum sem Jón Ásgeir hefur eitthvað með að gera, að endurskoða sínar fjárfestingar."
Hann segist hafa verið farinn að hugsa sig tvisvar um hvort hann hefði gert rétt með að láta yfirvöld vita hvernig forstjórar Baugs misnotuðu fyrirtækið í eigin þágu.
Í samtali við fréttastofu sagði hann: „Ég myndi samt taka sömu ákvörðun aftur. Ekki spurning."
Að lokum segir Jón Gerald að málið hafi verið mjög lærdómsríkt. Það hafi verið honum og fjölskyldu hans erfitt, en hann hafi kynnst mörgu góðu fólki í sambandi við það.